Ungversk gúllassúpa fyrir óvænta gesti tilbúin á eldavélinni
Anita Engley Guðbergsdóttir er starfsmaður Hljómahallar og kynntist Ljósanótt fyrst árið 2012 þegar hún flutti til Reykjanesbæjar. Hún segir hátíðinu eina skemmtilegustu bæjarhátíð landsins.
Hvernig varðir þú sumarfríinu?
Fyrri partur sumarfrísins fór því miður í veikindi sem tók smá tíma að vinna sig út úr en þó var Norðurlandið heimsótt í rétt rúma viku með stærsta part fjölskyldunnar þar sem leitað var að góða veðrinu. Var það svo bara fundið heima í Njarðvík eftir allt saman þar sem notið var á pallinum, farið í göngur um Reykjanesbæ, hjólað í kaffi til vinkvenna, flughátíðin á Hellu heimsótt og ættarmót í Ásahreppi. Seinni part sumars var skipt á milli vinnu og góðrar ferðar til Ítalíu þar sem við eignuðumst nýja vini og unnustinn bar upp bónorðið í Feneyjum.
Hvað stóð upp úr?
Þakklæti fyrir tímanum með fjölskyldunni, stundir með nýjum og gömlum vinum ásamt ástinni allt í kringum mig.
Hvað kom skemmtilega á óvart í sumar?
Að veikindin fyrr í sumar hafi skilað mér þakklæti fyrir lífinu og að deila því þakklæti með ást og hlýju til fólksins í kringum mig. Einnig að gera meira af því að hlæja í lífinu og hafa gaman af því, sem og litlu ómerkilegu hlutunum í gráma hversdagsleikans.
Áttu þér uppáhaldsstað til að heimsækja innanlands?
Æskuslóðirnar Hveragerði standa ofarlega í hjartastað enda svo ofboðslega fallegt þar. En Vestfirðirnir eru líka staður sem ég get gleymt stund og stað í náttúrunni og notið í fjörðunum á milli fjallanna.
Hvað ætlar þú að gera í vetur?
Á planinu í vetur er að vinna áfram hér í bæ og byrja mitt fimmta ár hjá Hljómahöll og Rokksafni Íslands sem er auðvita skemmtilegasti vinnustaður landsins. Einnig er ein utanlandsferð á planinu í aðventunni og svo brúðkaup með vorinu. Nóg um að vera og hlakka til.
Hvernig finnst þér Ljósanótt?
Ég kynnist ljósanótt 2012 þegar ég flutti til Reykjanesbæjar og hefur mér fundist þetta ein af skemmtilegustu bæjarhátíðum landsins. Mér hefur þótt gaman að sjá hvað árgangar hafa nýtt sér hátíðina með afmælishittingum og skapað sína hefð sem kannski skapaðist í kringum árgangagönguna. Einnig hef ég gaman af því að sjá hvað menningarstarfið í bæjarfélaginu er öflugt í þátttöku hátíðarinnar.
Hvaða viðburði ætlar þú að sækja á Ljósanótt?
Fimmtudagurinn verður notaður í hvítvínsröltið með vinkonum, Duus verður heimsótt og nýja listasýningin verður skoðuð með börnunum ásamt öðrum listasýningum sem opna þessa helgi, kjötsúpan mun ekki fara framhjá mér né hátíðardagskráin á laugardagskvöldinu – en kvöldið verður klárað í vinnu á Ljósanæturballinu í Stapanum fram eftir nóttu.
Hver er besta minningin þín frá Ljósanótt?
Ég verð að nefna Árgangagönguna og þó ég væri aðflutt þá hafði hún mikil áhrif á mig og hefur hún alltaf gert. Ég fyllist svo miklu þakklæti til þess duglega fólks sem kom á undan okkur og byggði þetta fallega samfélag. Ég verð alltaf svo meir að innan þegar ég geng í gegnum hvert ártalið fyrir sig og sjá fólkið sem býður í vegkantinum eldast og get ekki komist hjá því að hugsa; „þetta fólk hefur unnið allt sitt líf og lagt allt sitt að mörkum og við hin yngri göngum hér í dag niður Hafnargötuna til njóta alls erfiðisins.“ Eitt sinn, rétt niður við Koda, sá ég eldri mann í hjólastól sem hafði ekki tök á að taka þátt í göngunni sjálfur en til þess stóðu hjá honum afkomendur sem ýttu honum svo af stað í gönguna og gerðu honum kleift að taka þátt. Þetta þótti mér svo táknrænt og fallegt. Að labba í gegnum Hafnargötuna í árgangagöngu er eins og að labba aftur á bak í tímann og nota ég þá stund til að þakka þeim í huganum sem á undan hafa farið.
Hefur skapast hefð í tengslum við Ljósanótt, eitthvað sem þú gerir alltaf?
Já, saumaklúbburinn fer alltaf saman á fimmtudagsröltið. Stundum höfum við farið út að borða fyrst og kvöldið endað í dansi með undirspili Eyfa (Eyjólfi Kristjánssyni) á Ránni. En þetta kvöld er alltaf tekið frá fyrir vináttuna. Ljósanótt er fjölskylduhátíð og hefur það ávallt verið útgangspunkturinn minn og því eru sem flestir viðburðir sóttir með henni. Kjötsúpan er nauðsynlegur punktur sem og hátíðardagskráin á laugardeginum en stundum hef ég haft ungverska gúllassúpu tilbúna á eldavélinni á laugardeginum því stundum stoppa fjölskylda og vinir úr Reykjavík við og er þá alltaf eitthvað heitt og gott á eldavélinni í dagskrá stoppinu fyrir kvölddagskrá.